Hvernig sannfærir þú foreldra þína að það sé í lagi að ferðast ein/n?
Segðu þeim ferðaplanið frá A-Ö. Sýndu þeim að þú sért búin/n að hugsa fyrir öllu og að þetta sé ekki bara hvatvís ákvörðun. Sannaðu fyrir þeim að þú sért nógu þroskuð/aður til þess að takast á við þetta ævintýri. Einnig er hægt að taka þau með á ferðafund hjá okkur. Með þessu vita þau hvað er framundan. Auðvitað þarf svo ekki að upplýsa foreldra um nákvæmlega allt sem gerðist í ferðinni.
Ætti ég að plana einn mánuð eða að vera með opinn miða? Semsagt, ætti ég að plana allt fyrir fram eða bara spila ferðina eftir eyranu?
Það fer algjörlega eftir hverjum og einum. Ertu rólegri þegar þú skipuleggur eitthvað, eða viltu taka ákvarðanir á síðustu stundu? Opinn miði er sniðugur ef þú ert ekki í tímaþröng.
Hvernig á ég samskipti við fólk ef ég tala ekki tungumálið?
Ef þú ert með snjallsíma með í för og ert með sim-kort í honum sem virkar þá getur þú notað þýðingaröpp sem þýða samtalið samstundis. Ef ekki þá getur þú notað handahreyfingar og andlitstjáningar en einnig kemur brosið manni ansi langt.
Hvernig skipuleggur maður sig á ferðalaginu? Notar maður tölvur á hostelum, sína eigin fartölvu eða símann?
Benni skipuleggur stærri partana, eins og skipulagðar ferðir, húsbíla og þess háttar áður en hann fer út. Minni ferðir og gistingar getur maður bókað í símanum á meðan maður er úti. Þá er gott að geyma allt mikilvægt í símanum eins og bókanir og ferðaplön. Eins og var svo nefnt áður er einnig gott að hafa útprentað ef maður skyldi nú týna símanum. Ekki taka eigin fartölvu, það er bara enn einn hluturinn til þess að hafa áhyggjur af og svo þyngir hún bakpokann.
Hvernig kynnist maður öðrum á ferðalaginu?
Byrjaðu á að skrá þig inn á síður þar sem hægt er að komast í samband við aðra ferðalanga sem eru að fara á svipaðar slóðir. Facebook er góður staður en einnig eru sér síður sem sérhæfa sig í svoleiðis. Næsta atriði eru hostel, þau eru frábær vettvangur til þess að kynnast öðrum ferðalöngum.
Er sniðugt að ferðast ein/n með Interrail?
Klárlega! Frábær hugmynd.
