Rio er vinsælasta borg Brasilíu. Það líður ekki að löngu þar til þú ferð að elska þessar fallegu víkur og strendur, fjöllin í baksýn borgarinnar, kaffibollan eða caipirinha í skuggum bars við ströndina, að horfa á fallega fólkið (já það er mjög fallegt fólk í Rio), endalausa fótboltaleiki á ströndum Copacabana, Ipanema og fjölmörgum öðrum ströndum borgarinnar og stöðugt suð iðandi borgarlífsins. Þetta og miklu meira finnur þú í Rio, einni af mótsagnarkenndustu stórborgum í heimi.
Rio de Janeiro er borg öfganna
Já, öfgakennt andrúmsloftið einkennir Rio. Rio mótast af háum fjöllum og umhverfi þeirra, það er eins og fjallsrætur þeirra sé að teygja sig niður að hafinu. Í raun hefur mannlífið mótast á svipaðan hátt því hlið við hlið, í þessari lifandi borg, búa menn af öllum stéttum og þjóðfélagsstigum. Víða í hinum ótalmörgu hverfum borgarinnar muntu sjá gríðarstór glæsihýsi við hliðin á favelas, sem finna má í næstum hverri fjallshlíð. Favelas eru fátækrarhverfi þar sem lífið gengur sinn eigin gang. Þar má nánast sjá staðfestingu um þá orðróma um fátæktar- og glæpasamfélag Rio og því ættir þú aldrei að vera þarna eins þíns liðs! Við mælum hins vegar með að fara í skipulagða ferð með leiðsögumanni sem er öruggt. Þannig muntu uppgötva að þessi litlu samfélög innan borgarinnar eru hrífandi og áhugaverð, og þau eru alveg jafn mikilvæg hlið á Rio og dásemlegar strandirnar og bryggjuhverfin.
Lífið er gleðskapur
Þegar kemur að því að fara út á lífið er Rio í algjörum sérflokki. Hið heimsfræga carnival þarf varla að kynna en við mælum einnig með að eyða gamlárskvöldi þar. Á því kvöldi er hin gríðarstóra Copacabana strönd og aðrar strendur borgarinnar fylltar af hressum og partýglöðum íbúum borgarinnar. Það er ógleymanleg stund að upplifa stemninguna, lifandi andrúmsloftið og flugeldana sem springa yfir hafinu á miðnætti. Brasilíubúar kyssa þig og faðma og fagna nýja árinu. Þú dansar í sandinum þar til sólin rennur upp!
Andrúmsloftið í Rio einkennist í raun af gleði og partýstemningu. Þar flæðir samba og bossa nova um stræti, torg og frá strandarbörum en sérstaklega frá hinum stóru fótboltaleikvöngum borgarinnar. Þú veist alltaf hvar mesta stemningin er þegar eitt af fjórum stærstu liðum í Rio spilar heimaleik. Fótbolti er þráhyggja í Brasilíu og það er stórkostleg upplifun að fara á leik, jafnvel þó þú sért ekki mikill aðdáandi fótbolta. Það er alltaf partý í áhorfendastúkunni.
Strendur, togvagn og ómótstæðilegt útsýni
Copacabana er frægasta ströndin en þar eru líka flestir ferðamenn, þú ættir því einnig að kíkja á ströndina í Ipanema. Ipanema er efristéttahverfi Rio með flottu fólki, strætum og verslunum. Ströndin í Botafogo hverfi gæti þó verið sú fallegasta í Rio, sérstaklega séð frá toppi fjallsins Pao de Azucar sem á íslensku gæti þýtt Sykurhleifur. Þaðan er útsýni yfir Rio og nágrenni algjörlega stórkostlegt. Farið er upp fjallið með togvagni (e. cable car) og er ferðin spennandi og ómissandi. Það sama má segja um ferðina upp að Kristsstyttuna, eða Christ The Redeemer, sem stendur uppi á hinu heillandi Corcovado fjalli. Þar er útsýnið ómótstæðilega fallegt!